Berserkur


Sunnudagur 15. júlí 1997

2.tbl 2.árg.

Ábm: Björn Friðgeir Björnsson


Þabbarasta það

Jahjarnahjar...

Ellefu mörk í tveim leikjum (eða voru það tólf...). Öðruvísi mér áður brá. Hvenær Víkingur skoraði síðast sjö mörk í leik, nú eða bara fjögur í deildarleik veit ég ekki, en verð vonandi búinn að komast að því þegar þið fáið þetta blað í hendur.

Ef ég vissi ekki betur, þá hefði ég haldið að strákarnir hefðu litið í Berserk fyrir Dalvíkurleikinn, þetta var gott að sjá, ef ekki annað en að þeir hittu þó allavega á markið. Dalvíkingar voru afspyrnuslakir og voru þessir tveir Dalvíkingar sem ég hitti á leiknum tiltölulega hissa á þessu þrem jafnteflum sem þeir höfðu náð. Það má því getum og vonum að því leiða að ef Víkingar standa sig að einhverju leyti það sem eftir lifir sumars, þá verði Dalvíkingar fyrir neðan okkur...

Einn...

Og þá þarf annað lið til, til að skjóta niður fyrir sig.

En nú er það bikarinn, og smá frí frá eilífum áhyggjum. Ég ætla nú að verða síðastur manna til að kvarta undan of háum Lengjustuðlum á Víkingsleikjum, en það er nú ekki eins og Skallarnir hafi verið að taka núlltu deildina í nefið. Þetta á að geta unnist með góðum leik, enda er bikarkeppnin eina vonin, svona til skemmri tíma litið, um að fá að sjá Víking spila á alvöru frjálsíþróttavelli. Berserkur er innilega einstaklega ósammála því að Laugardalsvöllurinn sé glæsilegur knattspyrnuvöllur. Til þess er alltof langt frá hliðarlínu upp í stúku, jafnvel lengra en á ÍR vellinum.

Að lokum, nokkur orð um íslenska landsliðið. Það er ljóst að eini Íslendingurinn sem er í alvöru liði er Eiður Smári. Það má jafnvel getum að því leiða að hann sé einn af fáum sem hafi rétta viðhorfið til að komast áfram í atvinnubolta. Aðrir eru í annarar deildar liðum, nú eða þessari afslöppun sem sænsku og norsku deildirnar eru, sérstaklega þar sem allir alvöru leikmenn þessara landa eru í öðrum löndum Evrópu. Til að bæta gráu ofan á svart, eru svo allir skárstu leikmenn landsliðsins látnir spila í flestum öðrum stöðum en þeim hentar best. Við hverju er þá hægt að búast?

YfirBerserkur